Góð lúsastaða – engin lyfja- eða önnur lúsameðhöndlun annað árið í röð

Nú þegar líður að vetri er laxalúsatímabilinu í sjókvíum að ljúka en það stendur yfirleitt hæst frá ágúst og framm í nóvember.
Háafell var með um 1,2 milljónir fiska í sjónum í haust og voru eftirfarandi fyrirbyggjandi aðgerðir notaðar til þess að halda laxalúsinni niðri:
- Stingray laser
- Hrognkelsi
- Lúsapils
- Ferskvatni dælt í sjókvíar til þess að halda niðri fiskilús.
Nú inn í veturinn eru um 0.05 lýs per fisk í Skarðshlíð og 0.18 lýs per fisk í Seyðisfirði. Í desember þegar hitastigið í sjónum fer undir 4 gráður hætta laxalúsalirfur að ná að setjast á laxinn og þá hafa laserarnir okkar gott svigrúm til að taka þessar tölur niður yfir veturinn, markmiðið er að nálgast 0 lýs fyrir næsta sumar.
Hér á síðunni hefur áður verið fjallað um þessar aðgerðir okkar en það er afar ánægjulegt að geta sagt frá því að annað árið í röð eru þessar fyrirbyggjandi aðgerðir að virka vel og losa okkur frá því að þurfa að meðhöndla með lyfjum eða með brunnbáti. Í umhverfismati lögðum við upp þessa aðferðafræði og höfum síðan þróað hana og betrumbætt. Þessi nálgun kemur sér vel fyrir Whole Foods-staðalinn sem setur kröfur um engar lyfjameðhandlanir í eldisferlinu.
Hvernig hefur svo fiskurinn það? Við lukum nýverið að slátra úr fyrstu kvínni í Seyðisfirði en sá fiskur var rúma 18 mánuði í sjókvíum. Á þeim tíma óx hann úr 200 grömmum í 6,25 kg með rúmlega 9% afföllum og 94% hlutfalli í fyrsta flokks lax.
Við höfum sagt það hér áður að góð lifun, hátt hlutfall fyrsta flokks lax og góð gæði þurfi að vera grunnurinn að samkeppnishæfni okkar. Nú þegar er Háafells laxinn að verða eftirsótt vara og er þessi árangur okkur hvatning til að halda áfram á sömu braut og gera enn betur.
Fleiri fréttir

Whole Foods vottun í höfn – stórt skref fyrir Háafell
Í rúm 2 ár hefur Háafell unnið eftir staðli Whole Foods-stórmarkaðarins í Bandaríkjunum. Whole Foods hefur sett mjög strangar kröfur sem snúa að umhverfi og velferð ásamt skýrum viðmiðum í samsetningu fóðurs og næringarinnihaldi.

Fyrsta seiðaflutningi á Val lokið
Í gær lauk fyrsta seiðaflutningi á nýjum brunnbáti Háafells, Val ÍS og gekk flutningurinn vel.