Háafell og móðurfyrirtækið HG eiga sér ríflega 80 ára sögu við Ísafjarðardjúp.

Djúpið – matarkista um aldir

Ísafjarðardjúp hefur frá því að land byggðist verið bæði mikilvæg matarkista og samgöngukerfi byggða við Djúp og norðan þess. Hraðfrystihúsið hf. var stofnað árið 1941 af útgerðarmönnum í Hnífsdal en síðar sameinaðist það öðrum rótgrónum fyrirtækjum við Djúp, fyrst Frosta í Síðavík en síðar Gunnvöru á Ísafirði. Þannig er móðurfélag Háafells samtvinnað atvinnusögu við Ísafjarðardjúp í nærri heila öld og eldisstarfsemin nýr kafli í þeirri sögu.

Brautriðjendur í þorskeldi

Móðurfélag Háafells, HG, hefur unnið að fiskeldi frá upphafi aldarinnar. Í upphafi var fangaður villtur smáþorskur sem fóðraður var í eldiskvíum þar til honum var slátrað eftir 8 til 16 mánuði. Nokkrum árum seinna hófst aleldi á þorski þar sem smáseiði úr klöktum hrognum voru alin í landeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri við Ísafjarðardjúp hvaðan þau voru síðan flutt í sjókvíar í Seyðisfirði og Álftafirði. Þar var fiskurinn alinn þar til hann hafði náð sláturstærð. Eftir mikið verðfall á þorski haustið 2008 brugðust rekstrarlegar forsendur fyrir þorskeldinu og undirbúningur fyrir eldi laxfiska hafinn. Í upphafi árs 2016 var síðasta eldisþorskinum slátrað en í lok sama árs hófst slátrun á fyrsta regnbogasilungnum.

Laxeldi í Ísafjarðardjúpi

Umsóknarferli í Ísafjarðardjúpi hófst árið 2011. Starfsfólk HG bjó að áratuga reynslu af rækjuveiðum í Djúpinu og um tíu árum af þorskeldi á þeim tíma og nýttu sér hana við val á bestu eldissvæðunum með hliðsjón af straumum, dýpi og veðri. Á þeim tíu árum sem umsóknarferlið fyrir laxeldið tók voru unnin tvö umhverfismöt sem skiluðu sér í tugum rannsókna á botni, straumum, lífríki og veðurfari. Því lá mikill undirbúningur að baki þegar laxeldi hófst árið 2022. Útgangspunkturinn hefur verið og mun vera að bera virðingu fyrir þeirri viðkvæmu náttúru sem við störfum í og gæta þess að umsvif Háafells hafi ekki neikvæð áhrif á lífríkið í matarkistunni.

Til hagsbóta fyrir samfélag í sátt við náttúru

Auk þeirra hefðbundnu umsvifa sem fylgja aukinni verðmætasköpun og auknum starfsmannafjölda hefur Háafell lagt mikið uppúr góðu samtali við samfélagið, bæði við sveitarfélögin sem og íbúana. Mikilvægt er að samfélögin fái sanngjarnan skerf af auðlindagjöldum í fiskeldi en ennfremur er mikilvægt að íbúar sjái aðferðir og leiðir okkar til þess að lágmarka líkur á neikvæðum áhrifum. Það er markmið starfsemi okkar að vera í sátt við náttúru og nota ávallt þær leiðir sem tryggja sem bestan árangur í því.

Starfsemi Háafells teygir sig um allt Ísafjarðardjúp

Hjá Háafelli starfa um 30 manns, sem búa í Bolungarvík, Ísafjarðarbæ og Súðavík.